þriðjudagur, 14. september 2010

Bloggsíðulistinn.

Það gengur hægt að fikta sig í gegnum þessa bloggsíðu. Eitt og annað sem ég á eftir að finna út úr. Mér tókst þó að búa til lið með linkum á nokkrar bloggsíður sem mér finnst gaman að fylgjast með. Væntanlega á ég eftir að bæta á þann lista.

Fyrsta má telja hana Önnu Fanney vinkonu mína með prjónabloggið sitt, Prjónaæði.

Svo langaði mig að fylgjast með því hvað Tálknfirskar frænkur mínar eru að pæla í Systraseiði.

Ég man ekki hvar ég fann Resurrection Fern, en mér finnst ótrúlega heillandi að skoða allar myndirnar sem hún setur inn á bloggið sitt, bæði af mjög sérstæðri handavinnu og svo virðist hún alltaf vera með nefið niðri í sverðinum og með ótrúlega listrænt og næmt auga fyrir því smáa í náttúrunni. Miðað við myndirnar virðist hún búa í einhverskonar jarðneskri paradís. Ég þarf að senda henni línu og spyrja hana hvar hún eigi heima. Ég held í Kanada einhversstaðar, ég er samt ekki viss.

Ég á örugglega eftir að setja inn fleiri prjóna og handavinnublogg til að friða Freygerði.

Davíð Þór, Ármann og Eva Hauksdóttir eru þarna á lista vegna þess að mér finnst þau skemmtilegir pennar. Ég er jafnvel oft sammála þeim. Ég var reyndar búin að ákveða að hafa bloggið mitt frétta og stjórnmálafrítt svæði, en þau sleppa vegna almennra skemmtilegheita og áhugaverðra pælinga um hvaðeina. Ármann hefur þó stungið menningunni og afþreyingunni undir stól og verið ansi pólitískur í skrifum síðan ég bætti honum á listann. Ég les hann samt.

Eins og ég vissi, þá er svona bloggsíða tímaþjófur. Eða væri það ef ég gæfi mér þann tíma sem ég þyrfti til að hafa þetta almennilegt. Ég ætla að bæta úr þessu mjög fljótlega, það er aðallega Freygerður sem þrýstir á að losa sig við efni.

Ekki meira að sinni.