fimmtudagur, 6. október 2011

Hollustuflipp.


Nei nú held ég að ég sé búin að toppa allt, er hægt að hafa það hollara?
Getur fæði verið of hollt?
Ef svo er þá hlýt ég að vera að nálgast mörkin, spáið í þetta:

Graskersfræ,
cashewhnetur,
gúrka,
sellerí,
steinselja,
spínat,
ferskur engifer,
limesafi,
alfalfa spírur,
spírulína,
kókosvatn,
extra virgin ólífuolía,
vatn.

Þetta allt var innihald hristings sem ég fékk mér í morgunmat.
Ég þarf varla að taka það fram að hann var grænn, og merkilegt nokk, þá var hann góður (jafnvel þó að ég hafi alltaf hatað sellerí).

Ég er nefnilega markvisst að reyna að troða selleríinu inn í fæðið mitt því að miðað við það sem ég hef lesið þá virðist þessi planta vera allra (minna að minnsta kosti) meina bót.

Ég bara gat ekki orða bundist þegar ég fór að íhuga hvað ég var að setja oní mig.

laugardagur, 24. september 2011

Óskapnaður, garnskissubók.


Þetta byrjaði allt á bleika vattarsaumaða diskinum í miðjunni.

Stundum þegar ég er á milli prjónaverkefna er ég hálf tóm. Langar til að hafa eitthvað í höndunum en hef ekki hugmynd um hvað. Þannig varð þessi óskapnaður til. Ég kalla þetta óskapnað, óskapnað í jákvæðri merkingu vegna þess að þetta stykki lýtur engum sérstökum lögmálum, Ég prjóna, hekla eða vattarsauma og bæti við það, allt eftir því hvort ég er í skapi til að prjóna, hekla eða vattarsauma þá og þá stundina.

Mér skilst að í handavinnuheiminum kallist svona fyrirbæri freeform knitting (eða crocheting) eða jafnvel scrumble, ef einhver vill googla það.

Reyndar setti ég eina reglu: Í óskapnaðinn fer eingöngu garn í bleikum, fjólubláum, blágrænum og köldum grænum tónum. Ég uppgötvaði líka að ég á heilu haugana af garni og garnafgöngum í þessum litatónum.



Hér er óskapnaðurinn búinn að vaxa töluvert. Minnir mig töluvert á landslag.

Förum aðeins nær:



Og ennþá nær:







Það er reyndar liðið dálítið síðan ég tók þessar myndir og óskapnaðurinn farinn að teygja sig ennþá lengra í allar áttir. Ég hef ennþá ekki hugmynd um hvar hann endar og hvað ég geri við hann. Rúmteppi? Risastórt sjal eða kannski vegglistaverk? Hef ekki hugmynd.

En þetta er ægilega gaman og ég fæ fullt af hugmyndum í leiðinni. Þetta er svolítið eins og garnskissubók. Eða kannski garnskissuteppi?

miðvikudagur, 23. mars 2011

Tímabær tímamót.

Jæja, nú er allt að gerast.

Ég er svolítið seinþroska. Hjá mér hafa hlutirnir gerst ákaflega hægt. Sem sést meðal annars á því að ég tók ekki bílpróf fyrr en rétt fyrir þrjátíu ára afmælisdaginn minn.

Tölvuþroski minn er líka mjöööög hægur. Ég fékk mér tölvu í fyrsta sinn árið 1999, aðallega til að geta verið með tölvupóst eins og hinir.

Ég er í mörg ár búin að humma það fram af mér að fá mér vefsíðu. Ég hef haft ótal afsakanir. Tvær þær helstu eru: Það er svo dýrt, og ég veit ekki hvernig ég vil að hún líti út. Á meðan gerðist ekkert.

Um daginn tók ég í hnakkadrambið á sjálfri mér og ákvað að gera eitthvað í málinu. Ég gerði könnun á netinu á því hvaða möguleika ég hefði á að búa mér til ókeypis vefsíðu, og viti menn, möguleikarnir eru margir. Á endanum valdi ég Google aðallega af því að ég er með google bloggsíðu og nenni ekki að flækja málin.

Þetta var nú aðeins flóknara en þeir vildu vera láta, ég prentaði út heilu bunkana af leiðbeiningum og er búin að vera að föndra við þetta núna í tvær - þrjár vikur, en í dag sleppti ég henni út á veraldarvefinn. Stórt skref fyrir mig.

Það sem hristi svona upp í mér til að kýla á vefsíðu var annað stórt skref sem ég var að taka. Ég er undanfarna mánuði búin að vera á námskeiði að læra á forritin Photoshop, Illustrator og Indesign, og það er gaman.

Hér er ég búin að starfa sem myndskreytir og teiknari í meira en tvo áratugi og hef aldrei þekkt haus né sporð á myndvinnsluforritum. Hvernig er þetta hægt???

Með þessu hef ég nefnilega verið gripin af þvílíku skann-kropp æði að það hálfa væri nóg. Ég er búin að skemmta mér við að fara í gegnum allt mitt myndefni (sem er orðið ansi mikið að vöxtum) skanna og búa mér til Picasa vefalbúm með völdum myndum.

Nokkur þeirra eru á nýju síðunni. Þar er eitt með myndum úr barnaefni, annað með annarskonar myndlýsingum, líka vatnslitamyndir sem ég hef unnið á milli verkefna.

Eitt þeirra snýst um verkefnið Ævintýri á vegg, sem ég á eftir að skrifa betur um.

Ef maður gerir ekkert, þá gerist ekkert. Þetta er allavega byrjunin. Ef mig langar í meira "fansí" vefsíðu seinna þá geri ég bara eitthvað í því, þá.

Hér kemur nýja vefsíðan mín.

Linkurinn er líka neðarlega í hliðardálkinum á síðunni.