föstudagur, 16. júlí 2010

Óþolandi orð.


Ég þoooooli ekki orðið Ógnvænlegur.

(Járngerður er mætt, því miður gat ég ekki haft hemil á henni lengur (innskot Freydísar)).

Hver konar orðskrípi er þetta? Það á að lýsa ógn, en seinni hluti orðsins: -vænlegur, er jákvæður. Þar af leiðandi hnýtur það um sjálft sig, og orðið verður merkingarlaust, og hugsanleg stemmning, sem gæti verið að byggjast upp í æsispennandi skáldsögu, verður hlægileg (Í mínum huga að minnsta kosti) og mig langar til að fleygja bókinni.

Ég tók reyndar ekki eftir þessu orði fyrr en fyrir nokkrum árum, þegar ég greip bók uppi á bókasafni, íslenska þýðingu á sögu sem, að ég held, er ein af klassíkerum hryllingsbókmenntanna. Allavega var gerð eftir henni fræg bíómynd. Þýðingin var svo hroðaleg að hryllingurinn fór fyrir ofan garð og neðan. Full af villum af öllu tagi. Málvillum, innsláttarvillum, stafsetningarvillum, setningabrengli, og, undarlegt nokk, rökvillum (hugsanlega ekki þýðanda að kenna? Það er spurningin). Ég nenni ekki að nefna nein nöfn, því þetta blogg gengur ekki út á að svívirða einhverja veslings þýðendur úti í bæ, eða aðra, ef út í það er farið (þarna heldur Freydís í hemilinn á Járngerði). Ég á það til að klára bækur út af þrjósku, þannig að ég þrælaði mér í gegnum þessa.

Andrúmsloftið var ÓGNVÆNLEGT.

Síðan get ég ekki þverfótað fyrir þessu orði. Ég sé það alls staðar, í ólíklegustu bókum og alltaf fæ ég ofnæmisviðbrögð.

Getur verið að ég sé ein um þetta óþol, og að þetta orð sé talið eðlileg íslenska ásamt systurorði sínu, Uggvænlegur?

Ég kíkti reyndar í íslensku orðabókina og orðið er ekki þar. (Reyndar ekki heldur orðið Ógnvekjandi, sem mér finnst skrýtið, Ógnþrunginn var þar hins vegar).

En hvort sem þetta orð er viðurkennd íslenska eða ekki, þá þoooooli ég það ekki, og hananú.

laugardagur, 10. júlí 2010

Meiri þæfingur í töskuformi.










Freygerður hér.

Taska númer tvö sem ég gerði var úr einföldum plötulopa og garni sem heitir Fame trend, prjónað saman.

Ég þarf aðeins að þróa þetta form betur en áferðin var stórskemmtileg. Aftur var pælingin lopi sem þæfist með fínum þræði sem þæfist ekki.

Og nú gerðist ég stórtæk, bjó til eina litla sem Egill sníkti út úr mér. Þarna var hins vegar léttlopi með örfínum marglitum nælonþræði og svolítið meiri litagleði. Þarna prjónaði ég tvö hringlaga form, framhlið og bakhlið með úrtökum þannig að umferðirnar liggja eins og þær geisli út frá miðjunni, skeytti þeim svo saman með hliðarrenning sem myndaði líka axlarbandið, sem ég prjónaði við.
Þá datt mér í hug að útvíkka þá hugmynd og bjó til eina stóra í sama formi, en alla prjónaða í einu stykki. Ég birti mynd af henni seinna, þegar ég er búin með allan frágang. Fleiri hugmyndir fæddust út frá þessu hringformi, t. d. kjóll sem ég á eftir að taka mynd af.


Og bakhliðin:

Svo verð ég að skella einni með af stoltum töskueiganda:

föstudagur, 9. júlí 2010

Þæft töskuspjall.

Freygerður er mætt.

Ég hef lagst í prjónapest alltaf öðru hverju í gegnum tíðina, í mislöngum köstum þó. Svo hafa kannski liðið nokkur ár á milli kasta. Yfirstandandi kast er búið að standa yfir í örugglega um fimm ár. Og ekkert lát er á. Fer frekar versnandi ef eitthvað er. (Ég skrifa eins og þetta sé eitthvað neikvætt, en spyrjið Valda. Honum finnst hann stundum vera hálfgerður prjóna-ekkill, greyið).

Mér er hins vegar alveg fyrirmunað að fara eftir uppskriftum, þó að ég hafi gaman af að skoða þær og þá sjaldan að ég tek fyrir einhverja uppskrift, þá breyti ég henni. Kemst einhvern veginn ekki hjá því. Hins vegar streyma hugmyndirnar að og ég hef stundum ekki undan að skissa þær niður, hvað þá að framkvæma þær. Síðan er ég alveg glötuð í að "dokumentera þetta": skrifa niður, taka myndir. Mér finnst aðdáunarvert (og stundum svolítið skrýtið) hvað margir, sem eru kannski að stíga sín fyrstu skref í prjónaskap í yfirstandandi prjónaæði íslendinga, eru duglegir að ljósmynda allt sem þeir gera í bak og fyrir og setja á netið.

En ég þarf að standa mig betur í þessu, og af nógu er að taka. Mér datt í hug að byrja á töskunum mínum.

Einhvern tíman í fyrra datt mér í hug að prjóna saman einfaldan plötulopa og mislitt sokkagarn og þæfa. Síðan saumaði ég saman nokkra þæfða búta og bjó mér til hnausþykkt vetrarpils, svona ef ég þyrfti að kuldaverja á mér bossann. Það kom út áhugaverð áferð, þar sem sokkagarnið þæfist ekki, en lopinn gerir það, og skemmtilegt litaspil. Ég er rétt að byrja að kanna þá möguleika.

Ég er ein af þeim sem kaupi mér nánast aldrei töskur af því að ég finn aldrei neinar sem mér líkar, og er því alltaf í töskuhallæri. En í vetur datt mér allt í einu í hug að byggja á þessum grunni og gera mér þæfða tösku. Hér sést útkoman. (Tek það fram að peysan er heimahönnuð líka).


Því miður, eins og svo oft, byrjaði ég bara að prjóna, skrifaði ekkert niður, vissi varla hvernig hún yrði í laginu, en vonaði þó að hún yrði einhvern vegin svona, henti henni í þvottavélina, og núna er ekki fræðilegur möguleiki á að ég geti gert aðra eins. Hér sést áferðin aðeins betur: