fimmtudagur, 6. október 2011

Hollustuflipp.


Nei nú held ég að ég sé búin að toppa allt, er hægt að hafa það hollara?
Getur fæði verið of hollt?
Ef svo er þá hlýt ég að vera að nálgast mörkin, spáið í þetta:

Graskersfræ,
cashewhnetur,
gúrka,
sellerí,
steinselja,
spínat,
ferskur engifer,
limesafi,
alfalfa spírur,
spírulína,
kókosvatn,
extra virgin ólífuolía,
vatn.

Þetta allt var innihald hristings sem ég fékk mér í morgunmat.
Ég þarf varla að taka það fram að hann var grænn, og merkilegt nokk, þá var hann góður (jafnvel þó að ég hafi alltaf hatað sellerí).

Ég er nefnilega markvisst að reyna að troða selleríinu inn í fæðið mitt því að miðað við það sem ég hef lesið þá virðist þessi planta vera allra (minna að minnsta kosti) meina bót.

Ég bara gat ekki orða bundist þegar ég fór að íhuga hvað ég var að setja oní mig.

laugardagur, 24. september 2011

Óskapnaður, garnskissubók.


Þetta byrjaði allt á bleika vattarsaumaða diskinum í miðjunni.

Stundum þegar ég er á milli prjónaverkefna er ég hálf tóm. Langar til að hafa eitthvað í höndunum en hef ekki hugmynd um hvað. Þannig varð þessi óskapnaður til. Ég kalla þetta óskapnað, óskapnað í jákvæðri merkingu vegna þess að þetta stykki lýtur engum sérstökum lögmálum, Ég prjóna, hekla eða vattarsauma og bæti við það, allt eftir því hvort ég er í skapi til að prjóna, hekla eða vattarsauma þá og þá stundina.

Mér skilst að í handavinnuheiminum kallist svona fyrirbæri freeform knitting (eða crocheting) eða jafnvel scrumble, ef einhver vill googla það.

Reyndar setti ég eina reglu: Í óskapnaðinn fer eingöngu garn í bleikum, fjólubláum, blágrænum og köldum grænum tónum. Ég uppgötvaði líka að ég á heilu haugana af garni og garnafgöngum í þessum litatónum.Hér er óskapnaðurinn búinn að vaxa töluvert. Minnir mig töluvert á landslag.

Förum aðeins nær:Og ennþá nær:Það er reyndar liðið dálítið síðan ég tók þessar myndir og óskapnaðurinn farinn að teygja sig ennþá lengra í allar áttir. Ég hef ennþá ekki hugmynd um hvar hann endar og hvað ég geri við hann. Rúmteppi? Risastórt sjal eða kannski vegglistaverk? Hef ekki hugmynd.

En þetta er ægilega gaman og ég fæ fullt af hugmyndum í leiðinni. Þetta er svolítið eins og garnskissubók. Eða kannski garnskissuteppi?

miðvikudagur, 23. mars 2011

Tímabær tímamót.

Jæja, nú er allt að gerast.

Ég er svolítið seinþroska. Hjá mér hafa hlutirnir gerst ákaflega hægt. Sem sést meðal annars á því að ég tók ekki bílpróf fyrr en rétt fyrir þrjátíu ára afmælisdaginn minn.

Tölvuþroski minn er líka mjöööög hægur. Ég fékk mér tölvu í fyrsta sinn árið 1999, aðallega til að geta verið með tölvupóst eins og hinir.

Ég er í mörg ár búin að humma það fram af mér að fá mér vefsíðu. Ég hef haft ótal afsakanir. Tvær þær helstu eru: Það er svo dýrt, og ég veit ekki hvernig ég vil að hún líti út. Á meðan gerðist ekkert.

Um daginn tók ég í hnakkadrambið á sjálfri mér og ákvað að gera eitthvað í málinu. Ég gerði könnun á netinu á því hvaða möguleika ég hefði á að búa mér til ókeypis vefsíðu, og viti menn, möguleikarnir eru margir. Á endanum valdi ég Google aðallega af því að ég er með google bloggsíðu og nenni ekki að flækja málin.

Þetta var nú aðeins flóknara en þeir vildu vera láta, ég prentaði út heilu bunkana af leiðbeiningum og er búin að vera að föndra við þetta núna í tvær - þrjár vikur, en í dag sleppti ég henni út á veraldarvefinn. Stórt skref fyrir mig.

Það sem hristi svona upp í mér til að kýla á vefsíðu var annað stórt skref sem ég var að taka. Ég er undanfarna mánuði búin að vera á námskeiði að læra á forritin Photoshop, Illustrator og Indesign, og það er gaman.

Hér er ég búin að starfa sem myndskreytir og teiknari í meira en tvo áratugi og hef aldrei þekkt haus né sporð á myndvinnsluforritum. Hvernig er þetta hægt???

Með þessu hef ég nefnilega verið gripin af þvílíku skann-kropp æði að það hálfa væri nóg. Ég er búin að skemmta mér við að fara í gegnum allt mitt myndefni (sem er orðið ansi mikið að vöxtum) skanna og búa mér til Picasa vefalbúm með völdum myndum.

Nokkur þeirra eru á nýju síðunni. Þar er eitt með myndum úr barnaefni, annað með annarskonar myndlýsingum, líka vatnslitamyndir sem ég hef unnið á milli verkefna.

Eitt þeirra snýst um verkefnið Ævintýri á vegg, sem ég á eftir að skrifa betur um.

Ef maður gerir ekkert, þá gerist ekkert. Þetta er allavega byrjunin. Ef mig langar í meira "fansí" vefsíðu seinna þá geri ég bara eitthvað í því, þá.

Hér kemur nýja vefsíðan mín.

Linkurinn er líka neðarlega í hliðardálkinum á síðunni.

þriðjudagur, 14. september 2010

Bloggsíðulistinn.

Það gengur hægt að fikta sig í gegnum þessa bloggsíðu. Eitt og annað sem ég á eftir að finna út úr. Mér tókst þó að búa til lið með linkum á nokkrar bloggsíður sem mér finnst gaman að fylgjast með. Væntanlega á ég eftir að bæta á þann lista.

Fyrsta má telja hana Önnu Fanney vinkonu mína með prjónabloggið sitt, Prjónaæði.

Svo langaði mig að fylgjast með því hvað Tálknfirskar frænkur mínar eru að pæla í Systraseiði.

Ég man ekki hvar ég fann Resurrection Fern, en mér finnst ótrúlega heillandi að skoða allar myndirnar sem hún setur inn á bloggið sitt, bæði af mjög sérstæðri handavinnu og svo virðist hún alltaf vera með nefið niðri í sverðinum og með ótrúlega listrænt og næmt auga fyrir því smáa í náttúrunni. Miðað við myndirnar virðist hún búa í einhverskonar jarðneskri paradís. Ég þarf að senda henni línu og spyrja hana hvar hún eigi heima. Ég held í Kanada einhversstaðar, ég er samt ekki viss.

Ég á örugglega eftir að setja inn fleiri prjóna og handavinnublogg til að friða Freygerði.

Davíð Þór, Ármann og Eva Hauksdóttir eru þarna á lista vegna þess að mér finnst þau skemmtilegir pennar. Ég er jafnvel oft sammála þeim. Ég var reyndar búin að ákveða að hafa bloggið mitt frétta og stjórnmálafrítt svæði, en þau sleppa vegna almennra skemmtilegheita og áhugaverðra pælinga um hvaðeina. Ármann hefur þó stungið menningunni og afþreyingunni undir stól og verið ansi pólitískur í skrifum síðan ég bætti honum á listann. Ég les hann samt.

Eins og ég vissi, þá er svona bloggsíða tímaþjófur. Eða væri það ef ég gæfi mér þann tíma sem ég þyrfti til að hafa þetta almennilegt. Ég ætla að bæta úr þessu mjög fljótlega, það er aðallega Freygerður sem þrýstir á að losa sig við efni.

Ekki meira að sinni.

föstudagur, 16. júlí 2010

Óþolandi orð.


Ég þoooooli ekki orðið Ógnvænlegur.

(Járngerður er mætt, því miður gat ég ekki haft hemil á henni lengur (innskot Freydísar)).

Hver konar orðskrípi er þetta? Það á að lýsa ógn, en seinni hluti orðsins: -vænlegur, er jákvæður. Þar af leiðandi hnýtur það um sjálft sig, og orðið verður merkingarlaust, og hugsanleg stemmning, sem gæti verið að byggjast upp í æsispennandi skáldsögu, verður hlægileg (Í mínum huga að minnsta kosti) og mig langar til að fleygja bókinni.

Ég tók reyndar ekki eftir þessu orði fyrr en fyrir nokkrum árum, þegar ég greip bók uppi á bókasafni, íslenska þýðingu á sögu sem, að ég held, er ein af klassíkerum hryllingsbókmenntanna. Allavega var gerð eftir henni fræg bíómynd. Þýðingin var svo hroðaleg að hryllingurinn fór fyrir ofan garð og neðan. Full af villum af öllu tagi. Málvillum, innsláttarvillum, stafsetningarvillum, setningabrengli, og, undarlegt nokk, rökvillum (hugsanlega ekki þýðanda að kenna? Það er spurningin). Ég nenni ekki að nefna nein nöfn, því þetta blogg gengur ekki út á að svívirða einhverja veslings þýðendur úti í bæ, eða aðra, ef út í það er farið (þarna heldur Freydís í hemilinn á Járngerði). Ég á það til að klára bækur út af þrjósku, þannig að ég þrælaði mér í gegnum þessa.

Andrúmsloftið var ÓGNVÆNLEGT.

Síðan get ég ekki þverfótað fyrir þessu orði. Ég sé það alls staðar, í ólíklegustu bókum og alltaf fæ ég ofnæmisviðbrögð.

Getur verið að ég sé ein um þetta óþol, og að þetta orð sé talið eðlileg íslenska ásamt systurorði sínu, Uggvænlegur?

Ég kíkti reyndar í íslensku orðabókina og orðið er ekki þar. (Reyndar ekki heldur orðið Ógnvekjandi, sem mér finnst skrýtið, Ógnþrunginn var þar hins vegar).

En hvort sem þetta orð er viðurkennd íslenska eða ekki, þá þoooooli ég það ekki, og hananú.

laugardagur, 10. júlí 2010

Meiri þæfingur í töskuformi.


Freygerður hér.

Taska númer tvö sem ég gerði var úr einföldum plötulopa og garni sem heitir Fame trend, prjónað saman.

Ég þarf aðeins að þróa þetta form betur en áferðin var stórskemmtileg. Aftur var pælingin lopi sem þæfist með fínum þræði sem þæfist ekki.

Og nú gerðist ég stórtæk, bjó til eina litla sem Egill sníkti út úr mér. Þarna var hins vegar léttlopi með örfínum marglitum nælonþræði og svolítið meiri litagleði. Þarna prjónaði ég tvö hringlaga form, framhlið og bakhlið með úrtökum þannig að umferðirnar liggja eins og þær geisli út frá miðjunni, skeytti þeim svo saman með hliðarrenning sem myndaði líka axlarbandið, sem ég prjónaði við.
Þá datt mér í hug að útvíkka þá hugmynd og bjó til eina stóra í sama formi, en alla prjónaða í einu stykki. Ég birti mynd af henni seinna, þegar ég er búin með allan frágang. Fleiri hugmyndir fæddust út frá þessu hringformi, t. d. kjóll sem ég á eftir að taka mynd af.


Og bakhliðin:

Svo verð ég að skella einni með af stoltum töskueiganda:

föstudagur, 9. júlí 2010

Þæft töskuspjall.

Freygerður er mætt.

Ég hef lagst í prjónapest alltaf öðru hverju í gegnum tíðina, í mislöngum köstum þó. Svo hafa kannski liðið nokkur ár á milli kasta. Yfirstandandi kast er búið að standa yfir í örugglega um fimm ár. Og ekkert lát er á. Fer frekar versnandi ef eitthvað er. (Ég skrifa eins og þetta sé eitthvað neikvætt, en spyrjið Valda. Honum finnst hann stundum vera hálfgerður prjóna-ekkill, greyið).

Mér er hins vegar alveg fyrirmunað að fara eftir uppskriftum, þó að ég hafi gaman af að skoða þær og þá sjaldan að ég tek fyrir einhverja uppskrift, þá breyti ég henni. Kemst einhvern veginn ekki hjá því. Hins vegar streyma hugmyndirnar að og ég hef stundum ekki undan að skissa þær niður, hvað þá að framkvæma þær. Síðan er ég alveg glötuð í að "dokumentera þetta": skrifa niður, taka myndir. Mér finnst aðdáunarvert (og stundum svolítið skrýtið) hvað margir, sem eru kannski að stíga sín fyrstu skref í prjónaskap í yfirstandandi prjónaæði íslendinga, eru duglegir að ljósmynda allt sem þeir gera í bak og fyrir og setja á netið.

En ég þarf að standa mig betur í þessu, og af nógu er að taka. Mér datt í hug að byrja á töskunum mínum.

Einhvern tíman í fyrra datt mér í hug að prjóna saman einfaldan plötulopa og mislitt sokkagarn og þæfa. Síðan saumaði ég saman nokkra þæfða búta og bjó mér til hnausþykkt vetrarpils, svona ef ég þyrfti að kuldaverja á mér bossann. Það kom út áhugaverð áferð, þar sem sokkagarnið þæfist ekki, en lopinn gerir það, og skemmtilegt litaspil. Ég er rétt að byrja að kanna þá möguleika.

Ég er ein af þeim sem kaupi mér nánast aldrei töskur af því að ég finn aldrei neinar sem mér líkar, og er því alltaf í töskuhallæri. En í vetur datt mér allt í einu í hug að byggja á þessum grunni og gera mér þæfða tösku. Hér sést útkoman. (Tek það fram að peysan er heimahönnuð líka).


Því miður, eins og svo oft, byrjaði ég bara að prjóna, skrifaði ekkert niður, vissi varla hvernig hún yrði í laginu, en vonaði þó að hún yrði einhvern vegin svona, henti henni í þvottavélina, og núna er ekki fræðilegur möguleiki á að ég geti gert aðra eins. Hér sést áferðin aðeins betur: