þriðjudagur, 14. september 2010

Bloggsíðulistinn.

Það gengur hægt að fikta sig í gegnum þessa bloggsíðu. Eitt og annað sem ég á eftir að finna út úr. Mér tókst þó að búa til lið með linkum á nokkrar bloggsíður sem mér finnst gaman að fylgjast með. Væntanlega á ég eftir að bæta á þann lista.

Fyrsta má telja hana Önnu Fanney vinkonu mína með prjónabloggið sitt, Prjónaæði.

Svo langaði mig að fylgjast með því hvað Tálknfirskar frænkur mínar eru að pæla í Systraseiði.

Ég man ekki hvar ég fann Resurrection Fern, en mér finnst ótrúlega heillandi að skoða allar myndirnar sem hún setur inn á bloggið sitt, bæði af mjög sérstæðri handavinnu og svo virðist hún alltaf vera með nefið niðri í sverðinum og með ótrúlega listrænt og næmt auga fyrir því smáa í náttúrunni. Miðað við myndirnar virðist hún búa í einhverskonar jarðneskri paradís. Ég þarf að senda henni línu og spyrja hana hvar hún eigi heima. Ég held í Kanada einhversstaðar, ég er samt ekki viss.

Ég á örugglega eftir að setja inn fleiri prjóna og handavinnublogg til að friða Freygerði.

Davíð Þór, Ármann og Eva Hauksdóttir eru þarna á lista vegna þess að mér finnst þau skemmtilegir pennar. Ég er jafnvel oft sammála þeim. Ég var reyndar búin að ákveða að hafa bloggið mitt frétta og stjórnmálafrítt svæði, en þau sleppa vegna almennra skemmtilegheita og áhugaverðra pælinga um hvaðeina. Ármann hefur þó stungið menningunni og afþreyingunni undir stól og verið ansi pólitískur í skrifum síðan ég bætti honum á listann. Ég les hann samt.

Eins og ég vissi, þá er svona bloggsíða tímaþjófur. Eða væri það ef ég gæfi mér þann tíma sem ég þyrfti til að hafa þetta almennilegt. Ég ætla að bæta úr þessu mjög fljótlega, það er aðallega Freygerður sem þrýstir á að losa sig við efni.

Ekki meira að sinni.

föstudagur, 16. júlí 2010

Óþolandi orð.


Ég þoooooli ekki orðið Ógnvænlegur.

(Járngerður er mætt, því miður gat ég ekki haft hemil á henni lengur (innskot Freydísar)).

Hver konar orðskrípi er þetta? Það á að lýsa ógn, en seinni hluti orðsins: -vænlegur, er jákvæður. Þar af leiðandi hnýtur það um sjálft sig, og orðið verður merkingarlaust, og hugsanleg stemmning, sem gæti verið að byggjast upp í æsispennandi skáldsögu, verður hlægileg (Í mínum huga að minnsta kosti) og mig langar til að fleygja bókinni.

Ég tók reyndar ekki eftir þessu orði fyrr en fyrir nokkrum árum, þegar ég greip bók uppi á bókasafni, íslenska þýðingu á sögu sem, að ég held, er ein af klassíkerum hryllingsbókmenntanna. Allavega var gerð eftir henni fræg bíómynd. Þýðingin var svo hroðaleg að hryllingurinn fór fyrir ofan garð og neðan. Full af villum af öllu tagi. Málvillum, innsláttarvillum, stafsetningarvillum, setningabrengli, og, undarlegt nokk, rökvillum (hugsanlega ekki þýðanda að kenna? Það er spurningin). Ég nenni ekki að nefna nein nöfn, því þetta blogg gengur ekki út á að svívirða einhverja veslings þýðendur úti í bæ, eða aðra, ef út í það er farið (þarna heldur Freydís í hemilinn á Járngerði). Ég á það til að klára bækur út af þrjósku, þannig að ég þrælaði mér í gegnum þessa.

Andrúmsloftið var ÓGNVÆNLEGT.

Síðan get ég ekki þverfótað fyrir þessu orði. Ég sé það alls staðar, í ólíklegustu bókum og alltaf fæ ég ofnæmisviðbrögð.

Getur verið að ég sé ein um þetta óþol, og að þetta orð sé talið eðlileg íslenska ásamt systurorði sínu, Uggvænlegur?

Ég kíkti reyndar í íslensku orðabókina og orðið er ekki þar. (Reyndar ekki heldur orðið Ógnvekjandi, sem mér finnst skrýtið, Ógnþrunginn var þar hins vegar).

En hvort sem þetta orð er viðurkennd íslenska eða ekki, þá þoooooli ég það ekki, og hananú.

laugardagur, 10. júlí 2010

Meiri þæfingur í töskuformi.


Freygerður hér.

Taska númer tvö sem ég gerði var úr einföldum plötulopa og garni sem heitir Fame trend, prjónað saman.

Ég þarf aðeins að þróa þetta form betur en áferðin var stórskemmtileg. Aftur var pælingin lopi sem þæfist með fínum þræði sem þæfist ekki.

Og nú gerðist ég stórtæk, bjó til eina litla sem Egill sníkti út úr mér. Þarna var hins vegar léttlopi með örfínum marglitum nælonþræði og svolítið meiri litagleði. Þarna prjónaði ég tvö hringlaga form, framhlið og bakhlið með úrtökum þannig að umferðirnar liggja eins og þær geisli út frá miðjunni, skeytti þeim svo saman með hliðarrenning sem myndaði líka axlarbandið, sem ég prjónaði við.
Þá datt mér í hug að útvíkka þá hugmynd og bjó til eina stóra í sama formi, en alla prjónaða í einu stykki. Ég birti mynd af henni seinna, þegar ég er búin með allan frágang. Fleiri hugmyndir fæddust út frá þessu hringformi, t. d. kjóll sem ég á eftir að taka mynd af.


Og bakhliðin:

Svo verð ég að skella einni með af stoltum töskueiganda:

föstudagur, 9. júlí 2010

Þæft töskuspjall.

Freygerður er mætt.

Ég hef lagst í prjónapest alltaf öðru hverju í gegnum tíðina, í mislöngum köstum þó. Svo hafa kannski liðið nokkur ár á milli kasta. Yfirstandandi kast er búið að standa yfir í örugglega um fimm ár. Og ekkert lát er á. Fer frekar versnandi ef eitthvað er. (Ég skrifa eins og þetta sé eitthvað neikvætt, en spyrjið Valda. Honum finnst hann stundum vera hálfgerður prjóna-ekkill, greyið).

Mér er hins vegar alveg fyrirmunað að fara eftir uppskriftum, þó að ég hafi gaman af að skoða þær og þá sjaldan að ég tek fyrir einhverja uppskrift, þá breyti ég henni. Kemst einhvern veginn ekki hjá því. Hins vegar streyma hugmyndirnar að og ég hef stundum ekki undan að skissa þær niður, hvað þá að framkvæma þær. Síðan er ég alveg glötuð í að "dokumentera þetta": skrifa niður, taka myndir. Mér finnst aðdáunarvert (og stundum svolítið skrýtið) hvað margir, sem eru kannski að stíga sín fyrstu skref í prjónaskap í yfirstandandi prjónaæði íslendinga, eru duglegir að ljósmynda allt sem þeir gera í bak og fyrir og setja á netið.

En ég þarf að standa mig betur í þessu, og af nógu er að taka. Mér datt í hug að byrja á töskunum mínum.

Einhvern tíman í fyrra datt mér í hug að prjóna saman einfaldan plötulopa og mislitt sokkagarn og þæfa. Síðan saumaði ég saman nokkra þæfða búta og bjó mér til hnausþykkt vetrarpils, svona ef ég þyrfti að kuldaverja á mér bossann. Það kom út áhugaverð áferð, þar sem sokkagarnið þæfist ekki, en lopinn gerir það, og skemmtilegt litaspil. Ég er rétt að byrja að kanna þá möguleika.

Ég er ein af þeim sem kaupi mér nánast aldrei töskur af því að ég finn aldrei neinar sem mér líkar, og er því alltaf í töskuhallæri. En í vetur datt mér allt í einu í hug að byggja á þessum grunni og gera mér þæfða tösku. Hér sést útkoman. (Tek það fram að peysan er heimahönnuð líka).


Því miður, eins og svo oft, byrjaði ég bara að prjóna, skrifaði ekkert niður, vissi varla hvernig hún yrði í laginu, en vonaði þó að hún yrði einhvern vegin svona, henti henni í þvottavélina, og núna er ekki fræðilegur möguleiki á að ég geti gert aðra eins. Hér sést áferðin aðeins betur:

mánudagur, 28. júní 2010

Hádegismaturinn minn með allt of löngum formála.Síðastliðinn vetur slysaðist ég til að skrá mig í nokkuð á netinu sem hét Wishsummit .com. Í heilan mánuð bauðst mér að hlusta ókeypis á heilan hel af gúrúum sem létu sig heilsu kvenna varða, líkamlega, andlega, félagslega. Margt var mjög áhugavert og innspírerandi. Það rann fljótlega upp fyrir mér að síðuhaldarar aðhylltust hráfæði. Eflaust er margt óvitlaust við þá stefnu, en ég fyrir mitt leyti sé ekki fyrir mér að innbyrða eingöngu hráfæði hér uppá kalda Íslandi. Hráfæði, samkvæmt kenningum hráfæðissinna er nefnilega að ég held, nánast alltaf úr jurtaríkinu, ekki hrátt kjöt, fiskur og slíkt, þó að auðvitað sé t.d. harðfiskur ekkert annað en hráfæði.

Samt sem áður sé ég ekkert að því að innlima eitthvað af þeirra fróðleik inn í mataræðið. Ég semsagt varð forvitin og fann aðra afurð síðuhaldaranna, sem eru kanadískar hráfæðisdívur hér.
Þær eru auðvitað í bullandi bissness með alskonar onlæn detox námskeið, en ég tímdi ekki að borga neitt. Fann þó hjá þeim eitt og annað ókeypis, og skellti mér í viku hráfæðis detox.

Fyrir fíkla eins og mig er detox bara bilun. Járndís varð að láta í minni pokann. Ég þrælaði mér í gegnum dítoxið, en eins og Járndís var að reyna að hvísla að mér allan tímann, þá hlaut það að gerast um leið og kúrinn var búinn, að ég sökkti mér í allskyns ætar nautnir. Ég var súkkulaðisjúk í margar vikur á eftir.

þetta var um páskana og þá voru fréttir um að dökkt súkkulaði væri svo hollt, eiginlega allra meina bót. Ég tók þeim fréttum auðvitað fagnandi. Ég var ekki mikið að hugsa um að hollustan fælist frekar í einum, tveimur molum en ekki hálfri plötu á dag.

Það góða við þennan kúr er að ég notaði tækifærið og vandi mig af kaffi, sem ég var búin að misnota lengi.

Annað gott sem ég ánetjaðist er nokkuð sem kallast grænir hristingar. Ótrúlega þægileg og örlítið vanabindandi leið til að innbyrða helling af grænu grænmeti á mjög einfaldan og fljótlegan hátt.

Hér fyrir ofan er mynd af hádegismatnum mínum í dag rétt áður en og rétt eftir að hann maukaðist í fagurgræna súpu:

1/2 mangó
hnefi af spínati (beint úr garðinum)
2 greinar af myntu (líka úr garðinum, vex þar eins og arfi)
slurkur af hveitikími
1 tsk. spírulínaduft (til að styrkja enn betur græna litinn)
safi úr hálfu lime
svolítið af kókosmjólk (það eina sem gæti hugsanlega rýrt hollustugildið, en hún gefur bara svo gott bragð)
og vatn

Svo settist ég bara út í garð með þessa grænu goðafæðu.

(Ég þarf greinilega að æfa mig í að setja inn myndir, kom svolítið undarlega út).

laugardagur, 26. júní 2010

portrett af Agli.

Ég var að gramsa í tölvunni og fann þessa mynd sem mig minnir að ég hafi gefið Bjarna bróður í jólagjöf. (ekki amalegt fyrir hann að hafa lítinn frænda uppi á vegg).

Datt í hug að skella henni hér inn. Mér finnst hún líkjast honum, ég hefði annars ekki látið hana frá mér, hvað svo sem öðrum finnst.

föstudagur, 25. júní 2010

Bloggsíða, alveg óvart.

Ég var bara að fikta, alveg satt. Ég vildi bara gá hvernig maður gerði bloggsíðu og hvernig þetta alltsaman virkaði, og til þess varð ég að rekja mig í gegnum ferlið, og allt í einu var bara komin síða á netið.. úps. Jæja, þá er bara að sigla með og sjá hvað kemur út úr því.

Málið er bara að ég, Freydís, er svolítið tjáningarheft, en þær brjótast um nokkrar kellingar í kollinum á mér, og liggur oft ýmislegt á hjarta.

Nöldrarinn Járngerður tekur oft öll völd, en ég reyni að hafa taumhald á henni og skikka hana til að vera málefnaleg, hvernig sem það nú gengur.

Freygerður er alveg óð með prjónana, hún hefur ekki við að hripa niður hugmyndir og þyrfti eiginlega að ráða sér aðstoð við að framkvæma þær allar.

Járndís, hún er með heilsuna á sinni könnu. Það er eiginlega hún sem hefur vit fyrir mér, þegar ég dett í einhverjar öfgar. Hjá mér er það annaðhvort sófinn með ís og súkkulaði eða heilu föstukúrarnir. Hennar mottó er: Góð heilsa í sátt við líkamann eins og hann er. Í bili er hún búin að setja vigtina í bann.

Aldrei að vita nema fleiri detti inn, eins og hún Dísa litla.

Við sjáum til.