föstudagur, 25. júní 2010

Bloggsíða, alveg óvart.

Ég var bara að fikta, alveg satt. Ég vildi bara gá hvernig maður gerði bloggsíðu og hvernig þetta alltsaman virkaði, og til þess varð ég að rekja mig í gegnum ferlið, og allt í einu var bara komin síða á netið.. úps. Jæja, þá er bara að sigla með og sjá hvað kemur út úr því.

Málið er bara að ég, Freydís, er svolítið tjáningarheft, en þær brjótast um nokkrar kellingar í kollinum á mér, og liggur oft ýmislegt á hjarta.

Nöldrarinn Járngerður tekur oft öll völd, en ég reyni að hafa taumhald á henni og skikka hana til að vera málefnaleg, hvernig sem það nú gengur.

Freygerður er alveg óð með prjónana, hún hefur ekki við að hripa niður hugmyndir og þyrfti eiginlega að ráða sér aðstoð við að framkvæma þær allar.

Járndís, hún er með heilsuna á sinni könnu. Það er eiginlega hún sem hefur vit fyrir mér, þegar ég dett í einhverjar öfgar. Hjá mér er það annaðhvort sófinn með ís og súkkulaði eða heilu föstukúrarnir. Hennar mottó er: Góð heilsa í sátt við líkamann eins og hann er. Í bili er hún búin að setja vigtina í bann.

Aldrei að vita nema fleiri detti inn, eins og hún Dísa litla.

Við sjáum til.

1 ummæli: