mánudagur, 28. júní 2010

Hádegismaturinn minn með allt of löngum formála.



Síðastliðinn vetur slysaðist ég til að skrá mig í nokkuð á netinu sem hét Wishsummit .com. Í heilan mánuð bauðst mér að hlusta ókeypis á heilan hel af gúrúum sem létu sig heilsu kvenna varða, líkamlega, andlega, félagslega. Margt var mjög áhugavert og innspírerandi. Það rann fljótlega upp fyrir mér að síðuhaldarar aðhylltust hráfæði. Eflaust er margt óvitlaust við þá stefnu, en ég fyrir mitt leyti sé ekki fyrir mér að innbyrða eingöngu hráfæði hér uppá kalda Íslandi. Hráfæði, samkvæmt kenningum hráfæðissinna er nefnilega að ég held, nánast alltaf úr jurtaríkinu, ekki hrátt kjöt, fiskur og slíkt, þó að auðvitað sé t.d. harðfiskur ekkert annað en hráfæði.

Samt sem áður sé ég ekkert að því að innlima eitthvað af þeirra fróðleik inn í mataræðið. Ég semsagt varð forvitin og fann aðra afurð síðuhaldaranna, sem eru kanadískar hráfæðisdívur hér.
Þær eru auðvitað í bullandi bissness með alskonar onlæn detox námskeið, en ég tímdi ekki að borga neitt. Fann þó hjá þeim eitt og annað ókeypis, og skellti mér í viku hráfæðis detox.

Fyrir fíkla eins og mig er detox bara bilun. Járndís varð að láta í minni pokann. Ég þrælaði mér í gegnum dítoxið, en eins og Járndís var að reyna að hvísla að mér allan tímann, þá hlaut það að gerast um leið og kúrinn var búinn, að ég sökkti mér í allskyns ætar nautnir. Ég var súkkulaðisjúk í margar vikur á eftir.

þetta var um páskana og þá voru fréttir um að dökkt súkkulaði væri svo hollt, eiginlega allra meina bót. Ég tók þeim fréttum auðvitað fagnandi. Ég var ekki mikið að hugsa um að hollustan fælist frekar í einum, tveimur molum en ekki hálfri plötu á dag.

Það góða við þennan kúr er að ég notaði tækifærið og vandi mig af kaffi, sem ég var búin að misnota lengi.

Annað gott sem ég ánetjaðist er nokkuð sem kallast grænir hristingar. Ótrúlega þægileg og örlítið vanabindandi leið til að innbyrða helling af grænu grænmeti á mjög einfaldan og fljótlegan hátt.

Hér fyrir ofan er mynd af hádegismatnum mínum í dag rétt áður en og rétt eftir að hann maukaðist í fagurgræna súpu:

1/2 mangó
hnefi af spínati (beint úr garðinum)
2 greinar af myntu (líka úr garðinum, vex þar eins og arfi)
slurkur af hveitikími
1 tsk. spírulínaduft (til að styrkja enn betur græna litinn)
safi úr hálfu lime
svolítið af kókosmjólk (það eina sem gæti hugsanlega rýrt hollustugildið, en hún gefur bara svo gott bragð)
og vatn

Svo settist ég bara út í garð með þessa grænu goðafæðu.

(Ég þarf greinilega að æfa mig í að setja inn myndir, kom svolítið undarlega út).

Engin ummæli:

Skrifa ummæli