föstudagur, 9. júlí 2010

Þæft töskuspjall.

Freygerður er mætt.

Ég hef lagst í prjónapest alltaf öðru hverju í gegnum tíðina, í mislöngum köstum þó. Svo hafa kannski liðið nokkur ár á milli kasta. Yfirstandandi kast er búið að standa yfir í örugglega um fimm ár. Og ekkert lát er á. Fer frekar versnandi ef eitthvað er. (Ég skrifa eins og þetta sé eitthvað neikvætt, en spyrjið Valda. Honum finnst hann stundum vera hálfgerður prjóna-ekkill, greyið).

Mér er hins vegar alveg fyrirmunað að fara eftir uppskriftum, þó að ég hafi gaman af að skoða þær og þá sjaldan að ég tek fyrir einhverja uppskrift, þá breyti ég henni. Kemst einhvern veginn ekki hjá því. Hins vegar streyma hugmyndirnar að og ég hef stundum ekki undan að skissa þær niður, hvað þá að framkvæma þær. Síðan er ég alveg glötuð í að "dokumentera þetta": skrifa niður, taka myndir. Mér finnst aðdáunarvert (og stundum svolítið skrýtið) hvað margir, sem eru kannski að stíga sín fyrstu skref í prjónaskap í yfirstandandi prjónaæði íslendinga, eru duglegir að ljósmynda allt sem þeir gera í bak og fyrir og setja á netið.

En ég þarf að standa mig betur í þessu, og af nógu er að taka. Mér datt í hug að byrja á töskunum mínum.

Einhvern tíman í fyrra datt mér í hug að prjóna saman einfaldan plötulopa og mislitt sokkagarn og þæfa. Síðan saumaði ég saman nokkra þæfða búta og bjó mér til hnausþykkt vetrarpils, svona ef ég þyrfti að kuldaverja á mér bossann. Það kom út áhugaverð áferð, þar sem sokkagarnið þæfist ekki, en lopinn gerir það, og skemmtilegt litaspil. Ég er rétt að byrja að kanna þá möguleika.

Ég er ein af þeim sem kaupi mér nánast aldrei töskur af því að ég finn aldrei neinar sem mér líkar, og er því alltaf í töskuhallæri. En í vetur datt mér allt í einu í hug að byggja á þessum grunni og gera mér þæfða tösku. Hér sést útkoman. (Tek það fram að peysan er heimahönnuð líka).


Því miður, eins og svo oft, byrjaði ég bara að prjóna, skrifaði ekkert niður, vissi varla hvernig hún yrði í laginu, en vonaði þó að hún yrði einhvern vegin svona, henti henni í þvottavélina, og núna er ekki fræðilegur möguleiki á að ég geti gert aðra eins. Hér sést áferðin aðeins betur:

Engin ummæli:

Skrifa ummæli