föstudagur, 16. júlí 2010

Óþolandi orð.


Ég þoooooli ekki orðið Ógnvænlegur.

(Járngerður er mætt, því miður gat ég ekki haft hemil á henni lengur (innskot Freydísar)).

Hver konar orðskrípi er þetta? Það á að lýsa ógn, en seinni hluti orðsins: -vænlegur, er jákvæður. Þar af leiðandi hnýtur það um sjálft sig, og orðið verður merkingarlaust, og hugsanleg stemmning, sem gæti verið að byggjast upp í æsispennandi skáldsögu, verður hlægileg (Í mínum huga að minnsta kosti) og mig langar til að fleygja bókinni.

Ég tók reyndar ekki eftir þessu orði fyrr en fyrir nokkrum árum, þegar ég greip bók uppi á bókasafni, íslenska þýðingu á sögu sem, að ég held, er ein af klassíkerum hryllingsbókmenntanna. Allavega var gerð eftir henni fræg bíómynd. Þýðingin var svo hroðaleg að hryllingurinn fór fyrir ofan garð og neðan. Full af villum af öllu tagi. Málvillum, innsláttarvillum, stafsetningarvillum, setningabrengli, og, undarlegt nokk, rökvillum (hugsanlega ekki þýðanda að kenna? Það er spurningin). Ég nenni ekki að nefna nein nöfn, því þetta blogg gengur ekki út á að svívirða einhverja veslings þýðendur úti í bæ, eða aðra, ef út í það er farið (þarna heldur Freydís í hemilinn á Járngerði). Ég á það til að klára bækur út af þrjósku, þannig að ég þrælaði mér í gegnum þessa.

Andrúmsloftið var ÓGNVÆNLEGT.

Síðan get ég ekki þverfótað fyrir þessu orði. Ég sé það alls staðar, í ólíklegustu bókum og alltaf fæ ég ofnæmisviðbrögð.

Getur verið að ég sé ein um þetta óþol, og að þetta orð sé talið eðlileg íslenska ásamt systurorði sínu, Uggvænlegur?

Ég kíkti reyndar í íslensku orðabókina og orðið er ekki þar. (Reyndar ekki heldur orðið Ógnvekjandi, sem mér finnst skrýtið, Ógnþrunginn var þar hins vegar).

En hvort sem þetta orð er viðurkennd íslenska eða ekki, þá þoooooli ég það ekki, og hananú.

2 ummæli:

  1. "Insláttarvillum, stafsetningavillum, setningabrengli, og, undarlegt nokk, rökvillum"

    Skemmtileg notkun á kommum hjá þér :)

    SvaraEyða
  2. Hún Járngerður er öll á innsoginu. Þú getur túlkað hverja kommu sem innsog. Mjög mikilvægt ef einhverjum dytti í hug að lesa þetta upphátt.

    SvaraEyða