laugardagur, 24. september 2011

Óskapnaður, garnskissubók.


Þetta byrjaði allt á bleika vattarsaumaða diskinum í miðjunni.

Stundum þegar ég er á milli prjónaverkefna er ég hálf tóm. Langar til að hafa eitthvað í höndunum en hef ekki hugmynd um hvað. Þannig varð þessi óskapnaður til. Ég kalla þetta óskapnað, óskapnað í jákvæðri merkingu vegna þess að þetta stykki lýtur engum sérstökum lögmálum, Ég prjóna, hekla eða vattarsauma og bæti við það, allt eftir því hvort ég er í skapi til að prjóna, hekla eða vattarsauma þá og þá stundina.

Mér skilst að í handavinnuheiminum kallist svona fyrirbæri freeform knitting (eða crocheting) eða jafnvel scrumble, ef einhver vill googla það.

Reyndar setti ég eina reglu: Í óskapnaðinn fer eingöngu garn í bleikum, fjólubláum, blágrænum og köldum grænum tónum. Ég uppgötvaði líka að ég á heilu haugana af garni og garnafgöngum í þessum litatónum.Hér er óskapnaðurinn búinn að vaxa töluvert. Minnir mig töluvert á landslag.

Förum aðeins nær:Og ennþá nær:Það er reyndar liðið dálítið síðan ég tók þessar myndir og óskapnaðurinn farinn að teygja sig ennþá lengra í allar áttir. Ég hef ennþá ekki hugmynd um hvar hann endar og hvað ég geri við hann. Rúmteppi? Risastórt sjal eða kannski vegglistaverk? Hef ekki hugmynd.

En þetta er ægilega gaman og ég fæ fullt af hugmyndum í leiðinni. Þetta er svolítið eins og garnskissubók. Eða kannski garnskissuteppi?

2 ummæli:

 1. Vá hvað það hlýtur að vera gaman að búa þetta til. Kveðja
  Anna Fanney

  SvaraEyða
 2. Hæ Anna Fanney.
  Já hvort það er. Þetta er líka viss hvíld frá fyrirfram niðurnjörfuðum verkefnum. Jafnvel þegar ég fer ekki eftir uppskriftum, þá er ég að búa til mína eigin uppskrift, hvort sem ég skrifa hana niður eða ekki. þegar ég vinn í Óskapnaðinum er ótrúleg frelsistilfinning að þurfa ekkert að skipuleggja sig fyrirfram.
  Nú ætla ég að fara að verða duglegri hér inni, nóg er efnið.

  SvaraEyða